Útbúnaður leiðangursmanna árið 1976

 

12747947_434944660050146_8773842181899210150_o

Efri skíðin eru 40 ára gömul og voru notuð í leiðangrinum fyrir 40 árum.

Töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan sexmenningarnir þveruðu landið árið 1976. Mikil þróun hefur orðið á ýmis konar gerviefnum sem framleiðendur útivistafatnaðar keppast um að kynna sem lausn allra vandamála. En hvernig voru menn klæddir í þessari vetrarferð fyrir 40 árum? Einfaldleikinn var í fyrirrúmi og líklega hafa umræður um ágæti mismunandi útivistafatnaðar ekki verið jafn fyrirferðamiklar þá og nú.

 

 

Nærföt, sokkar og vettlingar voru úr ull. Bómull var þá, líkt og nú, á bannlista yfir nærfatnað í vetrarferð. Vettlingarnir þóttu betri ef þeir voru vel þæfðir. Buxur voru gjarnan úr nýmóðins streds-gerviefni sem þornaði fljótt. Að ofan voru menn klæddir í lopapeysu og þar yfir, ef þörf var á, í anorak úr þéttofinni bómull. Skór var annað hvort úr leðri eða plastefni. Skórnir sem leiðangurmenn höfðu til umráða voru léttir og höfðu lélega sóla svo þeir voru ekki góðir til göngu. Þegar vaða þurfti ár og læki voru dregin upp gúmmí stígvél sem leiðangursmenn tóku með þvert yfir landið.  Rigning var vel þekkt fyrirbæri á þessum árum. Þá klæddust menn léttum gúmmígöllum sem voru 100 prósent vatnsheldir.

Í náttstað fóru menn gjarnan í sérstaka snjósokka sem þeir höfðu látið sauma sérstaklega fyrir þessa ferð utan yfir skóna. Þeir komu í veg fyrir að þeir blotnuðu þegar slegið var upp tjöldum og matur eldaður. Tjöld voru af hefðbundinni gerð og ekki ætluð sérstaklega til vetrarferða. Leiðangursmenn höfðu pantað tjöld fyrir ferðina en þau bárust ekki í tæka tíð.

Ef skoðaðar eru myndir úr ferðinni vekur athygli að sólarvörn virðist hafa verið af skornum skammti. Því var brugðið á það ráð að klippa augngöt á hveitipoka sem settur var yfir höfuðið eða maka andlit með þekjandi zink-áburði. Sem betur fer var ekki mikið um mannaferðir á hálendinu í þá daga því ekki hefði verið frýnilegt að mæta þessum hópi.

Fyrir ferðina voru valin Fisher E99 gönguskíði sem þóttu áræðanleg. Púlkur voru heimasmíðaðar úr fíber og reyndust þær vel. Einnig voru saumuð segl sem menn gátu haldið á milli sín ef meðvindur var. Aðeins var mögulegt að nota þau einn dag.

Fjarskiptatæki voru talstöð sem var á sömu tíðni og fjarskipti flugvéla. Talstöðina mátti aðeins nota í neyð. Reglan var sú að ef ekkert heyrðist í hópnum þá var allt í lagi.

Gangan JEG - skúffa 3031

Hversu svalur er þessi? Hjalti Sigurðsson í öllu sýnu veldi.

 

 

%d bloggurum líkar þetta: