Leiðangurinn 1976

Þvert yfir Ísland – Frásögn Arngríms Hermannssonar

Þó menn hafi fyrr á öldum ferðast um hálendi Íslands finnast fáar heimildir um ferðalög að vetri til og engar sem segja frá ferðum þvert yfir hálendið frá austri til vesturs. Fyrsta ferðin sem vitað er til að hafi verið farin var fyrir 40 árum þeagr sex meðlimir Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík gengu á skíðum austur-vestur yfir hálendi Íslands árið 1976. Leiðangursmenn voru: Rúnar Nordquist (látinn), Þorsteinn Guðbjörnsson (látinn), Arngrímur Hermansson (Addi), Hjalti Sigurðsson, Jóhannes Ellert Guðlaugsson (Elli) og Þór Ægisson.

 

Undirbúningur

Áætlun okkar gekk út á að ganga frá Grenisöldu við Lagarfljót í austri og niður Geitlandsjökul að Húsafelli í Borgarfirði á 15- 20 dögum. Áætluð leið var um 450 km en átti eftir að lengjast.

Halda skildi sem mestri hæð og ganga á vatnaskilum. Með því mætti forðast  ár, gil og skorninga. Matur var útbúin til fimmtán daga og gert ráð fyrir neyðarfæði til þriggja daga. Þar sem ekki var til þurrmatur, þá var þetta mjög þungur venjulegur matur. Við fórum einnig um haustið með mat í Nýjadal og um veturinn flaug Ingvar Valdimarsson formaður með okkur til að kasta niður í fallhlífum, mat og olíu, á Hveravelli.

Smíðaðar voru púlkur sem við steyptum úr fíber. Þá voru farnar æfingaferðir um hverja helgi og þrekæfingar tvisvar í viku. Þess utan var hver með sitt æfingaprógram. Ég synti alltaf í hádeginu í miðri viku. Til að ferðast sem léttastir þá var ákveðið að vera með tvö tjöld og þrír yrðu í hvoru tjaldi. Við sérpöntuðum tjöld til fararinnar, en þau náðu ekki til landsins á tilsettum tíma. Því sátum við uppi með þau gömlu. Sex menn myndu fá bestu þyngdardreifinguna. Allt var viktað nákvæmlega og dreifingin höfð þannig að það léttist jafnt á alla.skíði, púlka og allur farangur. Í byrjun var þyngdin 45 kg á mann. Eins og svo oft áður aðstoðaði Flugfélag Ísland okkur í Flugbjörgunarsveitinni um far til Egilstaða. Þar með var upptalin sú aðstoð sem við fengum. Við sex æfðum stíft fyrir þessa ferð. Á undirbúningstímanum þurfti einn að hætta við för en þar var félagi okkar Ástvaldur (Valdi Rakari). Eftir miklar umræður völdum við Þór Ægisson nýliða með okkur. Við vorum því Hjalti Sigurðsson, Rúnar Norðquist (kallinn,ókrýndur fararstjóri) Jóhannes Ellert Guðlaugsson (Elli), Þorsteinn Guðmundsson  sem var elstur okkar, 34 ára, (Steini Málari) og ég. Allir höfðum við farið í æfingarferð frá Akureyri til Reykjavíkur, nema nýliðinn. Mestu reynsluna höfðu Rúnar og Hjalti af ferðum á gönguskíðum um hálendið.

Tilgangur fararinnar var meðal annars sá, að til þess að geta bjargað öðrum yrðum við að vera sjálfbjarga, og þá í marga daga í hvað veðri sem var. Þá var ekki vitað til þess að þetta hefði verið gert áður og var ekki endurtekið fyrr en einhverjum 20 árum seinna. Allir vorum við að Fisher Europe 77 skíðum með fíber sóla og stálköntum,sem við höfðu reynslu af að væru gríðarlega sterk. Við notuðum skíðaáburð frekar en að vera með rifflur. Þá völdum við rottufellur sem bindingar til að ná betri hreyfingu í hverju skrefi um ökklann,en það kom niður á hraðanum niður brekkur. En það kom ekki að sök,því mikill hraði hentar ekki með púlku. Þó svo að við útbyggjum bambus stífur og veltigrindur á púlkunar ultu þær oft. Löng skref og rennsli var best. Mjög lélegir skósólar voru stundum vandamál þegar klifra þurfti upp brekkur. Til að tryggja hita á fótum létum við sauma snjósokka til að fara í um leið og við förum af skíðunum á kvöldin. Að kvöldi fór skítkokkurinn Hjalti í það að bræða snjó meðan við tjölduðum og alltaf var reystur snjóvarnargarður utan um tjöldin. Viðurnefnið fékk hann eftir að hafa boðið upp á súpu bragbætta með skíðaáburði sem hafði óvart slæðst með. Við vissum að svo dauðþreyttir sem við værum á kvöldin, þá gætum við ekki rifið okkur upp um miðja nótt til að verjast vondu verðri. Þessi aukavinna skilaði sér oft í ferðinni.

Þá má ekki gleyma seglum sem við létum sauma, 3 x 1,5 metri og fóru utan um skíðastafinn á milli tveggja manna. Þegar réttur vindur var, sem var svo sem ekki oft, þá virkaði þetta mjög vel til að ná meiri hraða og yfirferð. Allir urðu að vera með dúnsvefnpoka.

Skipulagið á göngunni var þannig að gengið var í línu og fremsti maður tróð snjóinn í 30 mínútur. Þá tók næsti við. Sá sem var fremstur gekk nú aftastur og síðan koll af kolli allan daginn. Morgunmaturinn var hafragrautur með púðursykri og eins mikið að drekka eins og menn gátu í sig látið af heitu tei og helst aðeins meira. Þá var hver með einn lítra af heitu á hitabrúsa. Algerlega var bannað að drekka kalt, til að tapa ekki orku. Hver dagur var vigtaður og umpakkaður, Skráð, merkt og deilt út á mannskapinn þannig að það var það sem var í matinn þann daginn og ekkert annað. Mikið var lagt upp úr því að vera sjálfbjarga. Við vorum með sýklalyf, sterk verkjalyf, saumasett, bruna- og sárabindi. Svo og lyf við matareitrun og fleira. Einnig var með í för hefðbundnir slysapakkar með spelkum og ýmsum búnaði. Flugmálastjórn lánaði okkur öryggistæki, sem var þungt flugradíó sem var ákveðið að nota alls ekki nema í neyð. Þetta var einfalt. Ef ekki heyrist frá okkur þá var allt í lagi. Ef að heyrist kall, jafnvel ógreinilegt, þá var það ósk um aðstoð.

Fljótlega kom í ljós að við höfðum vanmetið orkuþörf okkar yfir daginn. Við höfðum valið magurt hangikjöt, en list okkar á fitu breytist á þremur dögum. Þannig að lýsisflaskan sem hafið engan kvóta var kláruð all snarlega. Allir kepptust við að fá sinn skammt af mat og eftir því sem leið á ferðina að fá að sleikja pottana.

 

Grenisalda – Kverkfjöll. Dagar 3 – 5

Þann 5.april 1976 var flogið austur og gist hjá Hjalta á Eskifirði. Þar var allt vigtað og skipt jafnt niður á mannskapinn. Síðan var haldið á tveimur jeppum inn Lagarfljót og ekið nýjan slóða upp á Grenisöldu undir forystu Ingimars bónda á Eyrarlandi. Þar tók á móti okkur mjög svo indæll maður Einar skálavörður og bauð okkur í hreindýrasteik. Hann var þarna í vinnu fyrir Landsvikjun og vissi hvað við vorum að fara að gera og vildi hann endilega veita okkur síðustu almennilegu kvöldmáltíðina fyrir för. Þess vegna komust við ekki af stað fyrr en um klukkan þrjú og var því fyrst dagsleið frekar stutt. Við Þrælaháls var slegið upp tjöldum. Þetta var góð prufa á það sem koma skildi og gengu allir í sín verk.

Næsta dag var gengið í 13 stiga frosti á nokkuð flötu 27 km landi og gist í Snæfellsskála. Við vorum búnir að átta okkur á því að einn til tveir dagar í tjaldi í röð væri í lagi en þriðja nóttin í tjaldi, án þess að komast inn til að þurrka gæti verið slæm nótt. Þess vegna var ákveðið að nýta alla þá skála sem til voru á leiðinni.

Sólin skein þegar risið var úr rekkju en samt renningur með því. Settum við upp hveitipoka með augngötum og vorum ekki ósvipaðir Ku Kluks Klan-mönnum til að verjast sólinni. Sumir reyndu zink þekju áburð,sem var mjög þægilegur og gerði sama gagn. Þá má ekki gleyma jöklagleraugunum en án þeirra var voðin vís.

Yfirleitt tók tvo tíma að vakna, borða, pakka, bera á skíðin og koma sér af stað. Þá var gengið frá kl 9- 12. Hálftími í hádegismat en þá máttum við drekka heitt af brúsanum okkar og borða flatkökur með kæfu og kex. Eftir það var bara kex. Alltaf var reiknað með að stoppa klukkan 18:00 og koma sér fyrir, því það tók að minnst tvo tíma,að tjalda,elda, nærast og gera skjólveggi. Við vorum búnir að læra að ef við værum lengur á ferðinni þá mynd það bara koma niður á næsta degi.

Frá Snæfelli lögðum við á Brúarjökul. Við vorum í góðu skapi. Allt virtist virka. Herðubreið horfði til okkar, þá Askja og Kverkfjöll fram undan í fjarska. Þetta var eins og í draumi.

Jökulsá á Brú var þveruð varlega á snjóbrú. Kallinn fór fyrstur í línu og við hinir á eftir. Við Kringilsárrana hafði bætt í vind, 8 til 9 vindstig og 9 stiga frost sem er um það bil – 24 gráðu vindkæling. Þá fraus í fyrsta sinn fyrir kjaftinn á Hjalta. Samt náðum við þrjátíu kílómetrum þennan dag. Við Kverká var slegið upp tjaldbúðum.

Næsta morgun voru morgunverkin unnin. Þegar borið var á skíðin, þá var sami áburður settur á öll skíði, svo allir drifu jafnvel eða illa. Smá viðgerð var gerð skíðaskó Þórs. Aftur var borið á skíðin í hádeginu og það dugið oftast að gera þetta tvisvar á hefðbundnum degi. Blái áburðurinn var oftast notaður en stundum græni í meira frosti eða skaraklístur við hjarni. Grænn gat verið neðstur og síðar blár ofan á eða þá rauður eða klístur fjólublátt, en þetta virkaði ekki vel í öfugri röð. Þá þurfti að hreinsa á milli. Við vorum með hitamæli til að mæla hitastigið í snjónum. Þetta gekk allt mjög vel til að fá grip. Stundum settum við silfur undir endanna á skíðunum til að ná betra rennsli og líka þá undir púlkurnar.

Fjórði göngudagurinn leit vel út og nú var stefnan tekin á Sigurðarskála í Kverkfjöllum. Miklar umræður við undirbúning voru búnar að vera um hvað leið ætti að fara. Yfir fjöllin eða að halda sig á sléttunum og ganga norður í Kverkhnúkaskarð. En það var stór krókur á móti því að fara yfir jökull og fjöll. Þar sem reiknaður meðalhraði okkar var um 30 km á dag, við góðar aðstæður var þetta mikil áskorun og ljúft að komast í skála. Við völdum öruggari leiðina og förum um skarðið.

Færið var flott 5 – 8 stiga frost logn og smá skari. Farið var yfir Kverká og Lindá á snjóbrú. Smá auka skaraklístur hjálpaði spyrnunni. Við flugum áfram. Þetta er einmitt reynsla okkar. Maður toppar oft á þriðja til fjórða degi og þegar myrkrið, tunglið og stjörnurnar vísuðu okkur síðustu kílómetrana þá var enginn þreyttur. Hjalti og ég fórum í kapp síðasta spölinn að skálanum. Tröllvaxið hraunlandslag allt um kring og aðeins hvissið í skíðunum heyrðist. Norðurljósin dönsuðu yfir okkur allan tímann. Þetta var drauma veröld. Við liðum áfram í okkar eigin heimi. Í þögninni og einmannaleikanum með félögunum. Aleinir, sterkir og tilbúnir í allt. Þvílíkur kraftur þennan dag. I skarðinu rákumst við á stikur og til að missa ekki af bestu leiðinni í myrkrinu þá fórum við að ganga í greiðu. Eftir 12 tima göngu höfðum við farið 35 km. Skálinn er í um 800 metra hæð. Einn skíðastafur brotnaði hjá nýliðanum en við vorum með varastaf. Það þarf oft lítið til að allt gangi hægar. Við vorum líka með vara framenda á skíðin ef eitthvað skíði myndi brotna, en það gerðist ekki.

 

Kverkfjöll-Hveravellir. Dagar 5- 15

Hvíldardagur. Í Kverkfjöllum var allt þurrkað og langt var á ráðin um framhaldið. Nú var að safna kröftum. Elli fór út að hlusta á flugradíoið kl 21:00 og heyrði í flugi frá Egilstöðum til Reykjavíkur. Útvarpið spáði vestanátt síðdegis daginn eftir og því lögðum við snemma af stað og tókum styðstu leið. Yfir jökulsá á fjöllum fórum við að hluta á snjóbrú,en urðum að vaða nokkra ála. Loks var lagt á Dyngjujökul. Töldum hann nokkuð öruggan þar sem hann hafði hlaupið níu árum fyrr. Með skíðin á þotunum var þrammað upp brattann. Eftir sex tíma puð upp jökulinn jókst mótvindur og nú fór að ganga mjög hægt. Annað slagið reyndum við að nota skíðin, en þá fórum við heldur aftur á bak en áfram. Þetta var tilgangslaust. En samt paufuðumst við mjög hægt áfram. Nú var hægt að nota skíðin en þá voru kominn 10 vindstig og nú fraus í annað sinn fyrri kjaftinn á Hjalta. Skeggið hans hélaði. Við hinir vorum með heimaprjónaðar andlitsgrímur til að loka litlum lamhúshettu opunum þegar skafrenningurinn var sem verstur. Veðrið var það slæmt að þoturnar tókust hreinlega á loft fullhlaðnar. Þar kom að þvi að okkur leits illa á að hafa næstugistingu svona hátt uppi og ákváðum að slá undan niður jökul til norðurs og komast að jökuljaðrinum í meira skjól. Í dagbók Þórs segir:„Það er ótrúlegt hvað maður heldur lengi áfram, eftir að maður telur sig vera gjörsamlega búinn.

Með sterkan hliðarvind gekk vel að lækka sig án þess að hörfa. Skyndilega lentum við í skjóli en sáum lítið vegna skafrennings. Hér vorum við komnir í mjög viða sprungu, sex metrar á breidd og fulla af snjó. Sprungan var 6–8 metrar á dýpt. Ákváðum að tjalda í henni. Sprungunni var lokað í báða enda með snjókögglum sem við söguðum með íssöginni.þannig að við vorum í mjög góðu skjóli. Áttum við góða nótt í Dyngjujökli.

Klósett vandamál voru ekki mikil þar sem við brenndum meira eða minna öllu sem var viktað ofan í okkur.

Alltaf var byrjað á að gera aðstöðu fyrir Hjalta svo að mögulegt væri að bræða snjó sem fyrst og bara himinn settur upp í því tjaldi, þar til allt matarstúss væri búið. Þá kom ekki raki í innra tjaldið. Rétt mátulega var kallað í mat þegar við vorum búin að gera snjóvarnir. Það var aldrei slegið af þeim. Þá var að koma sér fyrir eftir matinn. Einn í einu varð að hátta sig í svefnpokana. Eins á morgnanna þá fór einn af stað í einu. Alltaf var byrjað á því að bræða snjó. Steinolía var eitt það mikilvægasta sem við vorum með og vel tekið með af henni. Steinolíu prímusar voru oft með leiðindi og sótuðu og þurfi oft lagni til að koma þeim í gang. Fyrst að hita með spíra og síðan að ná hita í olíuna og kveikja í gufunni. En þegar þeir eru komnir í gangi jafnast fátt á við þá orku sem þeir gefa frá sér. Oft var grátið undan sótinu frá þeim en menn létu sig hafa það.

Dagurinn byrjaði ekki vel. Annað tjaldið rifnaði um nóttina. Prímusinn brenndi gat á hitt. Kallinn skar sig í fingurinn og ein tjaldsúla brotnaði. Svona mjög lítil atvik geta gjörbreytt svona leiðangri. Allt þarf að vera í lagi.

Þegar við komum niður af jökli var Gæsavatnaleið gengin fram hjá Kistufelli,en hér var farið á jökulinn í björgunarleiðangur eftir áhöfninni á Geysi. Nú var stefnan tekið á skálann í Gæsavötum. Auðvelt er að rata þessa leið þó svo að nú færi að dimma. Hríðarél með engu skyggni var skollið á þegar við ætluðu okkur að vera hjá skálanum og snjó hafi kyngt niður og færið því mjög þungt. Eftir tveggja tíma leit þar sem gengið var í greiðu var ákveðið að slá upp tjöldum. Það voru mikil vonbrigði að finna ekki skálann. Búnaðurinn var frekar blautur eftir síðustu nótt og olli það okkur óþægindum.

Daginn eftir var skálinn það fyrsta sem við sáum. Nú var farið yfir allar stefnur sem við ætluðum að ganga þann daginn. Því ef við kæmumst ekki í Nýjadal þá væri þriðja nóttin úti. Allar stefnur höfðu verið strikaðar á kort og settar inn gráður, bæði fyrir aðalleiðir og þær varaleiðir sem komu til greina. Þannig þurfti ekki að reika þetta út við erfiðar aðstæður. Þá urðum við að geta tekið hornamælingu og staðsett okkur með þriggja punkta staðsetningu sem gekk vel, þegar skyggi leyfði það. Ótrúlega vel gekk að halda stefnu en aftasti maður kallaði fram á mínútu fresti ýmist: Beint, vinstri eða hægri. Þá var á hálftíma fresti kallað; skipta. Nýr maður tók þá forustuna og tróð sporið. Dálítið flóknara var að fylgjast með vegalengd og hraða. Allir voru með áttavita og urðu að nota hann. Einnig vorum við allir með einhvers konar kort en Rúnar var með kort í kvarðanum1: 100.000 .Þá vorum við einhverjir með hæðamæli sem vinnur á loftvog. Allir tóku þátt í að rata.

Við höfðum farið með auka mat og steinolíu í Nýjadal (Jökuldal) um haustið og gegnum þá inn allan Nýjadal til enda og vetrarhrygginn til baka. Ef við myndum lenda í slæmu skyggi þá væri nægjanlegt að hitta á dalinn og hann myndi leiða okkur að skálanum.

Þess vegna völdum við Vonarskarðið. Veðrið versnaði og skyggið var sáralítið eftir því sem leið á daginn. Það hafi kyngt niður snjó alla nóttina. Við héldum ótrauðir áfram og það var tekið að skyggja, en einmitt þá gerðist það. Fyrsti maður gengur á skíðunum inn í snjóhelli og hverfur okkur sjónum. Út úr snjóhellinum streymdi mikli gufa. Inngangurinn var tveggja mannhæða hár eða meira. Þegar inn er komið þá var þar gríðarstór snjóhellir. Í botni hans voru sjóðandi heitir hverir og gufan hafið brætt allskonar ganga um hellinn. Það var notalega hlýtt þarna inni og við ákváðum að hér væri fimm stjörnu gisting. Hver gerði sér sína syllu til að sofa á og öll eldamennska var mjög þægileg. Þriðja nóttin var stjörnu nótt.

Daginn eftir vökuðum við við vondan draum. Allir svefnpokar og annað var gegn blautt því gufan hafið náð til þess. Rigning og bleyta var okkar versti óvinur. Héðan mátti ekki fara nema öruggt væri að ná skála. Þegar út kom blasti við okkur sól og heiður himinn. Því fylgdi mikið frost að minnst kosti 20 gráður. Og strax fann maður hvernig blautu fötin byrjuðu að frjósa. Nema lamb ullin. Hún tók í sig minnst af rakanum. Lopapeysa og föðurland frá toppi til táar virkar, þá helst vel gamalt eða þæft. Var það sérstaklega mikilvægt að vera með gamla vettlinga. Utan yfir föðurlandið voru menn í teygjubuxum sem tóku ekki í sig raka. Mínar voru með tvöföldum skálmum sem var gott til að losna við að fá snjó í skóna og gat komið í stað snjólegghlífa. Anorakurinn var úr bómull og yfirleitt með refaskinni eða öðru skinni á hettunni. Léttar regnbuxur og regnstakkur voru líka með. Lamhúshettan var okkar lífsnauðsyn, með litlu gati fyrir augu nef og munn. Auðvitað voru allir í tvöföldum ullarsokkum. Þá voru varaföt, aðalega innri föt. Rosalega var landið fagur og í þessu veðri. Útsýni til allar fjalla og jökla. Skíðin runnu létt áfram,smá klifur yfir í dalinn. Nú var bara að gefa í og ekki látið staðar numið fyrr en í Nýjadal. Það gekk eftir og önduðum við léttar þegar þangað var komið.

Það var yndislegt að komast í dósamatinn frá því um haustið og kveikja upp í kapisunni. Nú var allt tekið fram til þurrkunnar. Svefnpokarnir voru sem klakastykki og flest okkar föt. Veðurspáin var ekki góð næstu daga. Þannig að næsti dagur var hvíldardagur. Nú gekk yfir eitt versta veður í ferðinni og voru þau samt nokkur. Það var ekki hundi út sigandi. Í fréttum heyrðum við af sleðamönnum fyrir norðan í miklum vandræðum. Þá leit nú ekki vel út fyrir félaga okkar á Hofsjökli sem við hugðumst hitta. Mikið vorum við fegnir að vera inni. Nú var mögulegt að skoða fótsárin og plásta allt upp á nýtt. Smá viðgerðir á þotunum, og einn sóli á skíðaskó var límdur og kíttaður saman. Þá höfðum við áhyggjur af öðru tjaldinu þar sem himinninn hafði rifnað og viðgerðin ekki sú besta. Saumaskapurinn var ekki góður. Töldum við því ekki ráðlegt að fara styðstu leið þvert yfir Hofsjökul með þessa veðurspá. Þegar við lögðum af stað var ákveðið að lengja leiðinna fyrir öryggið og ganga þvert yfir Sprengisand og fara norður fyrir Hofsjökul,svæði sem við þekktum að er nokkuð slétt miðað við að fara suður fyrir, sem er mun styttra. Vonuðumst við til að hitta FBSR-félaga okkar úr eldri deild,seinna Lávarðana, jafnvel í Laugafelli.

Og enn næsta dag voru við veðurtepptir. Nú var ekki annað að gera en að skera niður matarskammtinn og vera alveg tilbúinn um leið og veðrið gengi niður. Það gerðis mjög snemma næsta morgun og vorum við lagð af stað um sjöleitið. Um hádegið kom skyndilega sunnan vindur og við gátum sett upp segl og náðum í Laugafell um klukkan tvö sem var ótrúlega góður tími á 40 km leið. Þetta var algert met. Meðalhraði okkar 6 km/klst. Eitt gil varð á leið okkar og vegna hraðans mátti litu muna að fyrstu tveir fykju ofan í það. Skyggni var mjög gott þó svo að láarenningur byrgði sýn niður á skíðin. Allir voru í góðu skapi yfir þessari hröðu yfirferð sem var gott mótvægi á lengingu ferðarinnar vegna breytinga á leiðarvali svo og þeim dögum sem við vorum veðrutepptir. Í Laugafelli kom í ljós að við höfðum rétt misst af eldri félögum okkar í Flugbjörgunnarsveitinni sem þveruðu Hofsjökul á leið sinni norður í land.

Enn setti veðrið strik í reikninginn og vorum veðurtepptir auka dag í Laugafelli líkt og í Nýjadal. Fundum mjög gamalt hveiti í skálanum, og áður en við vissum af var boðið upp á rjúkandi klatta. Spáin var afleit,en við vorum að renna út á tíma. Þrátt fyrir mótvind þá var lagt í hann og paufast á móti veðrinu klukkutímum saman. Nógu erfitt var að koma sér úr sporunum en að halda réttri stefnu í svo lélegu skyggni bætti ekki úr skák. Svæðið var snjólétt og berir melar sem varð að krækja framhjá. Mér fannst ekkert ganga. Horfði fremst á skíðin mín og sá hvernig skrefin urðu styttri og styttri. Þetta var nú meira bullið. Vissi ekki nema að við færum afturábak frekar en áfram. Nú var svo komið að Rúnar lét ekki forustuna af hendi og rak okkur alla áfram á móti veðrinu. Fyrst hann gat þetta þá gátum við það líka. En þar kom að því að þegar Rúnar kom upp á hæð eina, þá tókst hann á loft í rokinu og fauk með bakpoka og þotuna i eftirdragi aftur eftir skíðaröðinni og stöðvast þar. ‚‚Þetta er gott‘‘ sagði hann. Við fengum að leita að tjaldstæði undir Rauðhólum austan undan Ásbjarnarvötnum á svipuðum stað og árið áður og þóttumst við vera komnir á heimaslóðir. Enginn skáli er á þessu svæði og 50 km eru á Hveravelli,sem var heldur lengra en í fyrra.

Það var mikil áskorun að komast þangað næsta dag. Og allt var gert, farið snemma af stað,auka drykkir, og auka stopp. Prímusar kyntir til að ná í meiri vökva vegna þess að nokkrir hitabrúsar höfðu brotnað í veltingnum á púlkunum þannig að heitir drykkir voru skammtaðir. Dúfunesfell birtist enn og aftur allt of snemma líkt og fyrra og mjög hægt gekk að nálgast það. Hugurinn líður áfram um heima og geima. Hugsað er til fjölskyldunnar,og hvað er maður að gera hér? Augun stara á fremsta hluta skíðanna og næstu púlku sem verið er að elta. Skref fyrir skref heldur maður vélrænt áfram. Takturinn er mjög fastur og alltaf eins. Það gerði allt léttara. Við höfum ekkert fyrir þessari göngu. Við líðum áfram í draumaheimi. Á milli þess fannst okkur við hafa verið allt of lengi í þessar ferð. Vera eigingjarnir á tíma okkar og vildum komast sem fyrst heim. Eins fannst okkur ómögulegt að geta ekki látið vita af ferð okkar sem fyrst. Láta vita að allt sé í lagi þótt svo að okkur hafi seinkað. Síðasti spölurinn að Hveravöllum tók á. En veðrið var gott og stjörnubjart. Samt lágarenningur allan tímann. Skref fyrir skref gengum við áfram og allir voru í fínu formi. Við runnum vel í hverju skrefi og ekki margar hæðir sem þurfti að klífa. Þetta leit vel út. Fórum yfir Blöndu án þess að taka eftir því. Þegar skyggja tók sáum við rautt ljóst langt í fjarska frá veðurathugunarstöðinni. Enn var langt eftir. Hér var gert auka matarhlé svo að við ættum möguleika á þessu. Kynt undir prímus og elduð sætsúpa. Þvílíkt lostæti.

Síðasta spölinn var oft hvílt með því að liggja á bakinu og láta skíðin vísa upp í loftið. Þannig lá ég við hliðina á Steina,sem virtist búinn að fá nóg. Í vasanum framan á anóraknum var ég með eitt neyðar Suðusúkkulaðistykki mér til halds og trausts, enda alltaf svangur. Nú braut ég eina lengju handa Steina og ég fékk mér eina þar sem við lágum í snjónum á bakinu með skíðin upp í loft og létum blóðið renna til hjartans. Þetta gerði gæfumuninn. Og Steini mundi alltaf eftir þessum bita. Þegar við komum að Hveravöllum biðum við niður við girðingu en Steini bankaði upp á. Vildum ekki gera meira ónæði en þyrfti. Auður Brynja Sigurðardóttir og Páll Kristjánsson tóku vel á móti okkur. Við vorum drifnir inn, enda ekki mikið um mannaferðir. Þau höfðu ekki séð neinn síðan í byrjun vetrar. Fengum við nú kostinn okkar og var boðið að koma næsta dag í heimsókn.

 

Hveravellir –Kalmannstunga. Dagar 16 – 20.

Nú var matast í gamla skála en skálinn var í afleitu ástandi, kaldur og laugin var ekki í lagi. Þetta hafði versnað mikið frá því í fyrra. Eftir matinn minnti Hjalti okkur á að hann ætti 26 ára afmæli,svo við sungum afmælissönginn. Hann dró nú upp heila glerflösku af vodka. Nú urðum við hissa. Fyrir utan það að vera heil eftir allan barningin,þá var þetta þyngd sem er sú vitlausta að taka með sér,en féll undir persónulegan farangur. Nú var skenkt í snafsaglös, en þau urðu ekki fleiri en eitt, þá lognuðust allir út af sem einn og hurfu inn í sína draumaheima.

Næsta dag var veisla allan daginn hjá veðurathuganarmönnum en Páll og hundurinn Lubbi komu í heimsókn til að bjóða okkur í mat. Á þessum árum áttu þau varla von á heimsóknum allan veturinn og greinilegt að þau vildu fá nýjustu fréttir. Við reyndum hvað við gátum að koma lauginni í lag enda við skítugir mjög. Eftir sex tíma bras gáfumst við upp.

Nú var seinasti áfanginn eftir og við fundum að það var farið að hlýna. Við tókum stuttan áfanga í skálann í Þjófakrók til að gera okkur léttara að komast yfir Langjökul á sem stystum tíma. Skálinn var ekki í góðu ástandi en var betri en tjald í þessum vindi sem var. Matur var af skornum skammti og stolt okkar leyfði ekki að biðja um aukaskammt á Hveravöllum. Við kviðum dálítið jöklinum. Við vöknuðum kl 03:00 til að gefa okkur góðan tíma. 70 km eftir í næstu byggð, Kalmannstungu í Borgarfirði.

Ekkert ferðaveður var í þessu hvassviðri og blindþoku. Vegna þess hvað matur var af skornum skammti var ákveðið að þennan dag yrðu bara fjórar hrökkbrauðsneiðar á mann. Því hver dagskammtur átti að skila okkur ákveðinni vegalengd. Þeir sem ekkert vinna fá engan mat. Heldur ekki þeir sem ekkert ganga. Og neyðafæðið þurrkaður saltfiskur var ekki í boði fyrr en við sæjum fyrir ferðalok. Allann daginn var talað um mat og hvað menn ætluðu að borða eða gera þegar þeir kæmu heim.

Nú var ekki hægt að bíða lengur, 21. Apríl, gengum við inn með Fögruhlíð og fikruðum okkur upp á jökulinn. Inn í svarta þokuna fórum við og sáum ekki neitt. Skyggni var minna en þrír metrar og ekki sást á milli manna. Nú var að halda stefnunni en jökullinn er langur og nokkar mikilvægar beygjur á leiðinni og ekkert til að staðsetja sig með. Allir héldu áttavitnum á lofti til að taka stefnuna jafnt og þétt. Við vorum alltaf að týna hver öðrum. Birtan var mjög óþægileg þar sem allt rann saman, himinn og jörð í eitt allsherjar hvítt. Þetta gekk alltof hægt,og erfitt var að halda hópinn. Ekki bætti úr ská að það fór að hvessa á móti. Það fór svo að seinni part dags var tekin ákvörðun um að komast úr þessar árans þoku og fara niður í Jökulkrók. Er við töldum okkur vera við Þursaborg beygðum við til norðvesturs. Enginn okkar þekkti þetta svæði en það virtist vera svona skást en örugglega með einhverjum sprungum í þessum skriðjökli. Um leið og við urðum sprungu varir fórum við í bönd og fikruðum okkur niður af jöklinum. Þegar komið var niður á jafnsléttu komumst við loks úr þokunni og þá fyrst datt einn okkar og tók okkur alla með í fallinu,því við vorum enn í línu. Fyrst gekk vel að halda áfram en þegar við komum norður fyrir Eiríksjökul þá varð snjórinn mjög blautur og minnkaði hratt. Við vorum ofsa kátir þegar við losnuðum við jökullinn og þegar Hjalti sá fyrsta dökka dílinn hoppaði hann upp á hann á skíðunum og lét öllum illum látum. Þetta reyndist vera grjót sem fór ekki vel með skíðin. Ferðin yfir jökulinn hafið tekið 12 tíma án þess að stoppa og við vorum farnir að sjá fyrir endann á ferðinni. Snjórinn hafði bráðnað það mikið að nú var skíðafæri nánast ekkert. Þetta var slæmt. Það var allhvass vindur og ekkert til að tjalda á eða búa til skjól. Rétt fyrir myrkur, fundum við gjótu sem að næstum allir gátu setið í. Leituðum í klukkustund af einhverju betra en það gekk ekki. Varla var nú lengur stætt í vindbelgingnum sem gekk yfir. Illa gekk að koma hita í prímusinn, því vindurinn næddi um gjótuna. Að lokum gátum við hitað bjúgu en þau voru líklega eitthvað orðin úldin. Ég var svo svangur að ég drakk græna soðið með mikil áfergju. Eitthvað gekk Rúnari illa að matast og fór hann fljótlega að skjálfa það mikið að hann gat ekki talað. Rúnar var léttastur okkar. Líkamsþyngd mín var 88 kg þegar ég byrjaði á að æfa mjög stíft. Við brottför var ég 82 kg en við heimkomu 72kg. Það tók á að léttast um 10 kg á 20 dögum. En 10 kg fyrir Rúnar voru erfið, síðustu nóttinna var hann við það örmagnast og áttum við fullt í fangi með að halda honum heitum og koma ofan í hann mat og heitu vatni. Við tróðum honum í tvo svefnpoka og tveir lögðustu ofan á hann. Tveir okkar hímdu fyrir undan gjótuna til að loka fyrir vind og gefa pláss til að Rúnar gæti legið. Hálfa nóttina leit þetta alls ekki vel út. Loks náði hann að sofna án þess að skjálfa og náði upp líkamshita. Þá létti okkur mikið. Þetta var löng og leiðinleg nótt.

Þar sem lítið var sofið var lagt af stað um leið og birti klukkan fjögur. Þennan dag urðum við að setja allt á bakið. Bakpokann, púlkuna og skíðin. Snjórinn var farinn. Þannig klyfjaðir þrömmuðum við eina klukkustund í einu með tíu mínútna hléum. Það tók á að fara gegnum aur og drullu og síðan þetta grófa hraun. Við fórum ekki nægilega norðanlega til að lenda á slóðinni sem liggur upp á Arnarvatnsheiði. Eftir einhverja klukkutíma tók ég eftir því að báðar mjaðmirnar voru blautar. Það reyndist blæða undan mittisólinni á bakpokanum. En við vorum léttir í lund. Sáum fram á fullnaðar sigur. Þegar við sáum fram á að ná í Kalmarstungu var ákveðið að stoppa og létta á okkur og elda neyðarmatinn sem var það eina sem var eftir. Saltfiskur og hrísgrjón. Einn lítra af steinolíu földum við í gjótu og vitjuðum seinna. Klukkan var 17:30 þegar við komum að Kalmanstungu og voru þá liðnir 34 tímar frá því að við lögðum í hann frá Þjófadölum. Við biðum við heimreiðina meðan Þorsteinn óskaði eftir að fá að hringja. Við vorum drifnir inn í kaffi og kökur af þeim öndvegis hjónum, Kalmanni Stefánssyni og Bryndísi Jónsdóttur. Síminn hafið ekki stoppað hjá þeim síðustu þrjá daga þar sem fólk var að leita frétta af okkur. Kaffið og kökurnar hurfu eins og dögg fyrir sólu ofan í svanga maga. Húsfreyjan sá það fyrir og setti því upp kjötsúpu. Við reyndum að skilja eftir einn kjötbita fyrir kursteisis sakir en þegar Þór kláraði hann líka setti húsfreyja um nýjan skammt af kjötsúpu. Meðan við biðum félaga okkar úr Reykjavík létum við líða úr okkur. Á leiðinni til Reykjavíkur urðum við allir veikir og var stoppað reglulega til að kasta upp.

Ferðin tók okkur um 20 daga eða frá 3.apríl til 22. apríl. Bein loflína sem gengin var frá austri til vestur var um 350-400 km en erfitt er að meta hver hin raunverulega vegalengd var sem við gengum með öllum krókum sem gengnir voru. ‚‚Það getur engin bjargað öðrum á hálendi og jöklum Íslands ef hann getur ekki bjargað sjálfum sér‘‘ sagði Rúnar. Það var tilgangur ferðarinnar, að gefa okkur meiri möguleika á að bjarga öðrum, þess vegna urðum við að stunda þessa þjálfun. Það var nauðsyn.

Mikið var gott að komast heim. Við brögguðumst fljótt og hið venjulega líf tók við. Fararstjórinn okkar, Rúnar, varð að leggjast inn á spítala til að ná kröftum. Þessi reynslubolti starfaði mikið í FBSR og var mikil eftirsjá af honum þegar hann lést úr krabbameini alltof snemma. Þá lést Þorsteinn við fallhlífastökksæfingar. Við hinir eigum góðar minningar um þessa góðu vini okkar, úr ferðum, þar sem maður á allt undir félaganum.

Það sem maður lærði í þessari ferð átti eftir að nýtast vel í öllum ferðum svo og í hinu venjulega hversdagslífi. Bæði andlega og líkamlega styrktist maður við þessa ferð og þá erfiðleika sem við glímdum við. Aldrei varð ég hræddur og vont veður er bara huglægt ástand sem ég hef tileinkað mér að njóta og upplifa sem góða skemmtun. Seinna hef ég reynt að kenndi öðrum að ná tökum á því sama, að hafa stjórn.

Arngrímur Hermannsson


Blaðagreinar um ferðina

Morgunblaðið 4. apríl 1976

01


Morgunblaðið 8. maí 1976

opna


Morgunblaðið 9. maí 1976

020304


%d bloggurum líkar þetta: