Leiðangurinn 2016

Þegar við félagarnir ólumst upp, rákumst við stundum á gamlar ljósmyndir úr ferðalögum feðra okkar og fengum oft að heyra spennandi sögur af afrekum þeirra. Hvort þeir færðu söguna örlítið í stílinn skipti engu, því sagan varð bara betri fyrir vikið. Gönguskíða leiðangurinn frá Akureyri til Reykjavíkur og leiðangurinn þvert yfir landið 1976 komu við sögu þegar þurfti að miðla reynslu til okkar þegar við sjálfir vorum að hefja ferilinn í fjallamennsku.

Síðastliðin ár þegar við frændur og félagar hittumst höfum við oft rætt um að ganga á skíðum yfir þrjá stærstu jökla Íslands, Vatnajökul, Hofsjökul og Langjökul. Alltaf var haft á orði hversu mikið afrek það var að ganga þvert yfir Ísland fyrir 40 árum með þann útbúnað sem í boði var á þeim tíma. Þá voru enginn GPS-leiðsögutæki, einungis landakort og áttaviti. Þetta var einnig fyrir daga Gore-tex, Soft- shell, hard-shell, Windstopper og annarra sérhæfðra gerviefna.

Í ár eru 40 ár síðan leiðangur sex félaga úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík var farinn á gönguskíðum þvert yfir hálendi Íslands að vetri til. Þeir sem tóku þátt í þeim leiðangri voru: Rúnar Nordquist, Þorsteinn Guðbjörnsson, Arngrímur Hermansson, Hjalti Sigurðsson, Jóhannes Ellert Guðlaugsson og Þór Ægisson. Langar okkur félagana til að heiðra minningu þessara frumkvöðla með þvi að þvera landið yfir jöklana þrjá. Hallgrímur Örn og Hermann Arngrímssynir eru synir Arngríms Hermannssonar og Eiríkur Örn Jóhannesson sonur Jóhannesar Ellerts Guðlaugssonar sem gengu þver yfir landið 1976. Óskar Gústavsson, frændi Hermanns og Hallgríms er einning tengdur mönnum úr ferðinni 1976 þar sem Rúnari Nordquist var leiðbeinandi hans í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Til gamans má nefna að faðir Óskars, Gústav var leiðbeinandi þessara félaga í FBSR þegar þeir stigu sín fyrstu skref innan sveitarinnar upp úr 1970.

Við félagarnir hlutum okkar eldskírn í björgunarsveitunum, Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík og Hjálparsveit Skáta í Garðabæ og viljum með þessari ferð einnig benda fólki á það óeigingjarna sjálfboðaliðastarf og þjálfun sem hjálparsveitir landsins stunda til að bjarga fólki úr háska.

%d bloggurum líkar þetta: