Jöklarnir okkar

Við Íslendingar eigum erfitt með að ímynda okkur landið okkar án jökla. Jöklar þekja um 10% af þurrlendi Íslands. Þeir myndast þannig að meiri snjór fellur en nær að bráðna yfir sumartímann og smám saman myndast massi af ís. Frumskilyrði þess að geta kallast jökull er að hann hreyfist undan eigin þunga. Þetta getur gerst til dæmis þannig að jökull skríði yfir undirlag sitt og sígi fram fyrir sig líkt og deig. Jöklar eru flokkaðir á ýmsan hátt, til dæmis eftir útliti eða hitadreifingu. Ef farið er eftir hitadreifingu eru flokkarnir tveir; þíðjöklar þar sem hiti í jöklunum er um 0 gráður og gaddjöklar þar sem hiti í jöklunum er fyrir neðan 0 gráður. Íslenskir jöklar eru þíðjöklar. Vatn, t.d. rigningarvatn getur runnið í gegnum þíðjökul án þess að frjósa, síðan verður þetta vatn að jökulám. Stærð jökla getur tekið þó nokkrum breytingum eftir veðurfari. Jöklar voru til dæmis frekar litir hér á landi þegar landnámsmenn komu en stækkuðu þegar kólna fór í veðri á miðöldum. Núna virðast þeir aftur vera að hopa vegna hlýnandi veðurfars. Stærstu jöklar Íslands eru sunnanlands. Ástæða þess er sú að þar er úrkoma meiri en í öðrum landshlutum. Fimm stærstu jöklar Íslands eru, taldir eftir stærð, Vatnajökull, Langjökull, Hofsjökull,Mýrdalsjökull og Drangajökull. Aðrir þekktir jöklar eru til dæmis Eyjafjallajökull, Eiríksjökull og Snæfellsjökull.

Vatnajökull

Vatnajökull er stærsti íslenski jökullinn. Hann þekur um 8% af Íslandi. Hann er 8.100 ferkílómetrar að flatarmáli og er að meðaltali um 400-500 metra þykkur en þar sem hann er þykkastur er hann um 950 metra þykkur. Eldgos eru tíð undir jöklinum og þar eru einnig öflug jarðhitasvæði svo sem í Kverfjöllum, Grímsfjalli og vestan til í jöklinum. Þetta veldur því að undan honum koma jökulhlaup sem mótað hafa landslagið umhverfis jökulinn. Jökulhlaup eru sambland af vatni, ís, gjósku og grjóti. Við suðurjaðar Vatnajökuls rís hæsta eldfjall Íslands, Öræfajökull. Í Öræfajökli er hæsti tindur landsins, Hvannadalshnúkur, sem lengi var talinn 2.119 metra hár en reyndist við síðustu mælingu 2.110 metra hár. Vorið 1362 hófst gos í Öræfajökli. Gosið er mesta gjóskugos í Evrópu síðan eldfjallið Vesúvíus á Ítalíu lagði borgina Pompeii í auð árið 79 e. Krist. Ár sem flytja vatn frá Vatnajökli eru Jökulsá á Dal, Jökulsá á Fjöllum,Lagarfljót, Skjálfandafljót og Þjórsá. Vatnajökull er sá jökull Íslands sem best er rannsakaður. Rannsóknir á jöklinum hófust fyrir alvöru árið 1934 þegar gaus í Grímsvötnum en við gosið jókst áhugi manna á jöklinum. Frá miðjum 9. áratug síðustu aldar hefur Vatnajökull rýrnað, vegna hlýnandi veðurfars, um 1/2 – 1 metra á ári. Það sama má segja um Langjökul og Hofsjökul en fylgst er nákvæmlega með stærð þessara jökla.

Langjökull

Langjökull er annar stærsti jökull Íslands.Hann er um 900 ferkílómetrar að flatarmáli. Stærsti hluti jökulsins er í 1200-1300 metra hæð yfir sjávarmáli. Langjökull er allt að 580 metra þykkur. Margir skriðjöklar ganga út frá Langjökli og umhverfis hans eru einnig smájöklarnir Eiríksjökull, Þórisjökull og Hrútfelsjökull. Austan við Langjökul liggur fjallvegurinn Kjölur sem tengir saman Norður- og Suðurland. Langjökull er vinsæll ferðamannastaður því hann frekar auðveldur yfirferðar þó svo að á honum séu sprungsvæði eins og á öðrum jöklum. Þar er meðal annars að finna Ísgöngin. Austan undir jöklinum er jökullónið Hvítárvatn en það er upphaf Hvítár.

Hofsjökull

Hofsjökull er kenndur við bæinn Hof í Vesturdal í Skagafirði. Jökullinn er um 880 ferkílómetrar að flatarmáli og 1.765 metra hár þar sem hann er hæstur. Þekktustu skriðjöklar Hofsjökuls eru (talið réttsælis frá Arnarfelli): Múlajökull til suðausturs, Blautukvíslarjökull til suðurs, Blöndujökull til vesturs, Kvíslajökull til vest-norð-vesturs og Þjórsárjökull til austurs. Frá Hofsjökli renna stórar jökulár; Blanda, Þjórsá, Jökulfall, Austari-Jökulsá og Vestari-Jökulsá. Mikil megineldstöð og gosaskja leynist undir Hofsjökli. Askjan sést á gervitunglamyndum og kemur vel fram við dýptarmælingar á ísnum. Einnig er tölverð smáskjálftavirkni undir henni sem bendir til þess að þar sé virkt kvikuhólf. Ekki er vitað hvenær askjan varð til og ekki er heldur vitað hvenær síðast gaus innan hennar. Nokkur lítil hraungos hafa orðið í hlíðum Hofsjökuls á nútíma (þ.e. á síðustu 10.000 árum). Gígarnir eru nú huldir jökli en hrauntungur teygja sig út undan jökulröndinni og bera vitni um þessi gos. Jökullinn er vestan við Sprengisand og gróðursvæðið milli jökulsins og Sprengisands kallast Þjórsárver. Í Þjórsárverum eru stærstu varpstöðvar heiðargæsa í heiminum. Talið er að 1/3 heiðargæsa heimsins verpi þar. Jökullinn er frekar brattur og þurfa menn að gæta sín vel á sprungum. Starfsemi Blönduvirkjunar, Sultartangavirkjunar og Búrfellsvirkjunar byggist á vatni sem kemur frá jöklinum. Við suðausturhorn jökulsins eru fjöllin Arnarfell hið mikla og Arnarfell hið litla. Áður fyrr var Hofsjökull oft kallaður Arnarfellsjökull eftir Arnarfelli hinu mikla. Suðurbrekka þess fjalls er ótrúlega gróin miðað við hve hátt hún stendur yfir sjó og hafa fundist 97 tegundir blómplantna á henni.

 

%d bloggurum líkar þetta: